Bið verður eftir því að Litla grá og Litla hvít, mjaldrarnir tveir komi til landsins en stefnt var að komu þeirra til Íslands í næstu viku.
Að sögn aðstandenda verkefnisins, Merlin Entertainment og Sealife Trust, var ákvörðunin tekin vegna óhagstæðrar veðurspár hér á landi næstu daga og vegna þess að ekki hefur tekist að opna Landeyjahöfn fyrir siglingar milli lands og Eyja.
Talið er að mjaldrarnir, sem fá varanlegt heimili í Klettsvík í Vestmannaeyjum, myndu ekki þola flutning með Herjólfi frá Þorlákshöfn til Eyja sem er lokahnykkurinn á ferðalaginu en flug með þá hingað til lands frá Kína tekur um sólarhring.
Undirbúningur fyrir verkefnið hefur tekið marga mánuði og segja skipuleggjendur að erfitt hafi verið að taka ákvörðun um að fresta komu þeirra hingað til lands.
Staðan verður endurmetin á mánudag.
