Gísli Þór var skotinn í heimahúsi í miðbæ Mehamn í Finnmörku í Norður-Noregi. Lögregla fékk tilkynningu um að maður hefði verið skotinn laust fyrir klukkan sex á laugardagsmorgun. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var Gísli alvarlega slasaður en stuttu síðar var hann úrskurðaður látinn.
Tveir íslenskir karlmenn voru handteknir í gær vegna dauða Gísla Þórs. Annar þeirra er 35 ára gamall karlmaður og er grunaður um að hafa orðið Gísla Þór að bana. Hann birti stöðuuppfærslu á Facebook í gærmorgun þar sem hann viðurkenndi verknaðinn og baðst afsökunar.
Hinn maðurinn er 32 ára gamall en samkvæmt lögmanni hans neitar sá sök í málinu.

„Í morgun bankaði lögreglan upp á. Gísli minn var skotinn til bana í morgun.
Í losti sem stendur. Þvílíkt áfall. Sársaukinn er ólýsanlegur. Elsku hjartað mitt, takk fyrir samfylgdina. Hvíldu í friði. Elska þig þig ávallt ljósið mitt.
Til allra þeirra fjölmörgu vina sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls þessa mikla og stóra persónuleika sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Minning Gísla Þórs mun lifa að eilífu.“