RÚV greindi frá kröfu þingmannanna fjögurra sem hafa verið með erindi inni á borði Persónuverndar síðan í desember. Bára var gestur á Klaustur bar í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi 20. nóvember. Tók hún upp samtöl Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, en auk þeirra sátu tveir þáverandi þingmenn Flokks fólksins við drykk.
Þingmennirnir hafa haldið því fram að Bára hafi brugðið sér í dulargervi erlends ferðamanns umrætt kvöld. Þá hafa þeir óskað eftir upptökum úr myndavélum umrætt kvöld og telja hana ekki hafa verið eina að verki. Nýjasta krafan er sú að fá upplýsingar um greiðslur inn á reikning Báru.

„Þeir geta haldið fund, komið og sýnt sínar greiðslur og ég mínar. Það verður mjög áhugaverður samanburður.“
Bára telur að erindi þingmannanna tengist mögulega undirbúningi þeirra á einkamáli sem þeir ætli að höfða. Hún sé löngu hætt að skilja hvernig þingmennirnir hugsi.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við Vísi að krafan verði tekin fyrir á stjórnarfundi á mánudaginn. Aðspurð hvort krafa um upplýsingar um millifærslur á reikninga heyri undir Persónuvernd segir hún það einmitt það sem skoðað verði á mánudag.
Alls kyns beiðnir berist til Persónuverndar sem taka þurfi afstöðu til.