Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Austur-Húnavatnssýslu, sjúkraflutningamenn á Blönduósi og Lögreglan á Norðurlandi vestra fengu tilkynningu um slysið laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi að því er segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Óskað var eftir aðstoð áhafnar á þyrlu Landhelgisgæslunnar en TF-LÍF hélt norður á slysavettvang rétt upp úr tíu í gærkvöldi og sótti manninn, sem var alvarlega slasaður, til aðhlynningar á sjúkrahúsi. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

Ökumaðurinn sem lést í slysinu er með erlent ríkisfang. Ekki er unnt að greina frá nafni hans að svo stöddu.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar slysavettvang í dag og því verður veginum lokað eftir klukkan tíu í dag. Vegfarendum er bent á hjáleiðir um Svínvetningabraut og Skagastrandarveg og Þverárfallsveg til Sauðárkróks.
Þetta er fyrsta banaslysið í umferðinni það sem af er ári. Á síðustu árum hefur nær á annan tug látist í umferðinni ár hvert. Flestir í fyrra og árið 2016 og 2018 en fæstir létust árið 2014.