Búið er að vinda ofan af biluninni, sem Valitor segir að hafi verið „alvarlega rafmagnsbilun.“
Bilunin, sem kom upp á þriðja tímanum í dag, olli röskun á ýmsum þjónustum og varði í u.þ.b. klukkustund. Nú sé hins vegar búið að finna lausn á vandanum.
„Valitor harmar þau óþægindi sem viðskiptavinir kunna að hafa orðið fyrir,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Upprunaleg frétt hér að neðan.
Vegna bilunar í tölvukerfi Valitor geta korthafar átt í erfiðleikum með að greiða með greiðslukortum. Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að unnið sé að viðgerð.
Þar segir jafnframt að vegna bilunarinnar eru upplýsingar um stöðu kreditkorta óaðgengilegar í netbanka og appi. „Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta veldur,“ segir í tilkynningu Landsbankans.
Ljóst er að einhver fyrirtæki hafa lent í vandræðum vegna þessa. Þannig greindi pizzustaðakeðjan Domino's frá því að fyrirtækið gæti ekki tekið við greiðslum á netinu eða í posum útibúanna vegna bilunarinnar.