Bandarískur alríkisdómari úrskurðaði í dag að Chelsea Manning, fyrrverandi hermaður og heimildarmaður Wikileaks, hefði sýnt dómstólnum óvirðingu með því að neita að bera vitni. Manning verður aftur send í fangelsi en hún sat áður inni í tvo mánuði fyrir að neita að svara spurningum um Wikileaks.
Saksóknarar vilja að Manning beri vitni fyrir ákærudómstól um hvernig samstarfi hennar við Wikileaks var háttað þegar hún kom fjölda leyniskjala til uppljóstranavefsins árið 2010. Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið ákærður fyrir aðild að tölvuinnbroti vegna lekans og sækjast bandarísk yfirvöld eftir því að fá hann framseldan frá Bretlandi.
Manning hefur hins vegar neitað að bera vitni. Hún afplánaði tveggja mánaða fangelsisrefsingu fyrir að sýna dómstól óvirðingu í Virginíu en var sleppt í síðustu viku. Nú segir Reuters-fréttastofan að alríkisdómari í Virginíu hafi aftur talið hana sýna réttinum óvirðingu og gert henni fangelsisrefsingu.
Verði Manning ekki við stefnu um að bera vitni fyrir ákærudómstóli innan þrjátíu daga verður hún sektuð um 500 dollara á dag, jafnvirði rúmlega 61.000 íslenskra króna. Dagssektin tvöfaldast verði hún ekki við henni innan sextíu daga.
Manning var dæmd í 35 ára fangelsi og sat inni í sjö ár fyrir að hafa lekið skjölunum til Wikileaks þegar hún starfaði sem leyniþjónustugreinandi hjá Bandaríkjaher. Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, mildaði dóm hennar rétt áður en hann lét af embætti í janúar árið 2017.
Chelsea Manning send aftur í fangelsi

Tengdar fréttir

Segir málið tækifæri fyrir Assange til að hreinsa mannorð sitt
Rannsókn hefur verið opnuð á nýjan leik vegna ásakana á hendur Julian Assange um nauðgun.

Manning send í fangelsi fyrir að neita að bera vitni gegn Wikileaks
Manning er fyrrverandi hermaður sem var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2010 fyrir að leka leynilegum gögnum til Wikileaks.

Manning neitað um lausn gegn tryggingu
Manning var í mars úrskurðuð í gæsluvarðhald og færð í fangelsi fyrir að neita að bera vitni fyrir ákærudómstól

Manning laus úr fangelsi
Chelsea Manning fyrrverandi verktaki fyrir Bandaríkjaher sem lak upplýsingum til Wikileaks á sínum tíma er laus úr fangelsi.