Andrean starfar sem dansari hjá Íslenska dansflokknum og hefur verið mikið að gera hjá honum síðustu tvo mánuði, bæði hjá dansflokknum og með Hatara. Viktor er búsettur í London þar sem hann er í námi og ætti í raun að vera læra undir lokapróf núna.
Rétt náði
„Ég mætti á Gatwick-flugvöll þegar ég átti að vera á flugvellinum í Luton sem var ekki frábært. Ég náði síðasta fluginu og kom mér þangað. Það var eins og hálfs tíma seinkun á því flugi og það reddaði mér. Ég átti að lenda klukkan 8 um kvöldið en lenti klukkan korter í níu sýningin byrjarði klukkan tíu,“ segir Viktor sem átti þarna eftir að fara í gegnum vegabréfseftirlitið.
„Ég vildi ekki valda honum vonbrigðum að hafa misst af kvöldinu. Þetta snerist um að ég kom mér alla þessa leið til þess að sjá manninn minn upp á sviði og ég missi af því út af því að ég fór á vitlausan flugvöll. En það reddaðist allt á endanum og varð í rauninni bara betra. Ég var klæddur eins og ég væri á útihátíð, í íþróttafötum, og allir svaka fínir í kringum mig. Ég var bara í Adidas gallanum mínum og mér fannst þetta bara frábært. Ég er að springa úr stolti og þetta atriði er ógeðslega flott,“ segir Viktor á sundlaugabakkanum við Dan Panorama hótelið í Tel Aviv.
Hann ætlaði í framhaldinu að taka sér smá pásu til að sóla sig áður en hann ætlaði að glugga örlítið í bækurnar vegna lokaprófsins framundan.