Skoðun

Flugviskubit

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Það má vera öllum ljóst hvaða fólk það er sem á að vera með stöðugt „flugviskubit“ eða þjakað af „flugskömm“ – það er skríllinn. Ég og þú.

Hin, þessi góðu sem í löngu máli og flúruðu segja okkur frá loftslagsvandanum, ætla sér ekki að fljúga neitt minna en þau hafa gert hingað til. Nei, þau ætla heldur að bæta í. Þannig flaug starfsfólk Umhverfisstofnunar helmingi fleiri ferðir til útlanda í fyrra en árið 2015. Sú sem stýrir því batteríi (gott orð batterí í þessu samhengi) segir að þau vilji endilega fljúga minna. En samt ætla starfsmenn hennar alls ekki að fljúga minna á þessu ári, heldur meira. Starfsmennirnir flugu 150 ferðir í fyrra.

En ég má skammast mín. Ég flýg til útlanda tvisvar til þrisvar á ári hverju. Enda er ég skepna.

Ég er skepna og umhverfis­óþverri líkt og NATO-flugvélarnar sem hér æfa í boði Vinstri grænna (alveg sérstaklega) og hinna orkupakkanna í ríkisstjórninni. Hér spúa NATO-flugvélar eldi og brennisteini en það talar ekki nokkur maður um hvað það sé á við margar ferðir til Tenerife. Það er bara talað um mengun Tenerife-ferða þegar óbreytt alþýðufólk ætlar sér þangað í langþráð frí – það má skammast sín.

Og öfugmælavísnasmiðirnir sem öllu ráða sjá ofsjónum yfir því að fólk fer í helgarferðir til Dublin eða Hamborgar, við þessi venjulegu, en vilja um leið endilega fjölga ferðamönnum og „vinna markvisst að því“ – líklega eiga þeir ferðamenn að koma fótgangandi. Kannski eru bundnar vonir við að þeir geti síðar komið í gegnum sæstreng. En auðvitað bara með því skilyrði að Alþingi samþykki þá gjörð. En samþykktir Alþingis eru einhver mesta hindrun sem hægt er að hugsa sér.

Gott dæmi þar um eru smálánafyrirtækin.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×