Saulius Skvernelis, forsætisráðherra Litháen, telur ólíklegt að hann geti saxað á forskot tveggja efstu frambjóðendanna í forsetakosningunum sem fara nú fram í landinu. Skvernelis, sem er 48 ára gamall, hefur verið forsætisráðherra landsins frá árinu 2016.
Kjörstöðum var lokað klukkan átta að staðartíma í kvöld og er enn verið að telja atkvæðin. Sem stendur eru Ingrida Šimonytė, fyrrum fjármálaráðherra landsins, og Gitanas Nausėda, hagfræðingur, talin sigurstranglegust.
Sjá einnig: Járnfrúin lætur senn af embætti
Samhliða forsetakosningunum fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá sem fæli í sér fækkun þingmanna úr 141 í 121, auk þess litháískum ríkisborgurum yrði heimilt að vera með tvöfalt ríkisfang.
Í samtali við fréttamiðla þar í landi sagði Skvernelis að hann sæi ekki fram á það að komast áfram í næstu umferð kosninganna. Alls eru níu manns í framboði til forseta en hljóti enginn þeirra hreinan meirihluta verður kosið á milli tveggja efstu frambjóðendanna þann 26. maí næstkomandi.
