Lögreglan í höfuðborg Norður-Írlands, Belfast, hefur staðfest að grunsamlegur hlutur sem fannst undir bíl lögregluþjóns þar í borg sé sprengja ætluð til þess að ráða lögregluþjóninn af dögum.
Sprengjan fannst undir bíl lögregluþjónsins skömmu eftir hádegi í dag en það var haukfránn golfari sem kom auga á furðulegan hlut undir bílnum þar sem hann var lagður við golfvöll í borginni. Lögreglan var kölluð til og ákváðu að rýma klúbbhús golfvallarins en áætlað var að mót yrði haldið þar í dag.
Lögreglustjórinn Sean Wright sagði í samtali við Sky að sprengjan hafi augljóslega verið ætluð til þess að deyða lögreglumanninn og mikil mildi þyki að hún hafi fundist áður en hún sprakk.
