Umsækjendurnir fjórir eru Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri. Þeir hafa auk þess allir doktorspróf í hagfræði.
Sextán sóttu um stöðu seðlabankastjóra en í vikunni var greint frá því að Benedikt Jóhannesson fyrrverandi fjármálaráðherra hafi dregið umsókn sína til baka. Benedikt kvaðst ósáttur við að hæfisnefndin hygðist ekki taka tillit til sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins við mat sitt.
Þá herma heimildir Kjarnans að tveir aðrir umsækjendur hafi einnig dregið umsókn sína til baka en þess er ekki getið hverjir þeir eru. Samkvæmt heimildum Kjarnans var tólf umsækjendum skipt niður í hæfisflokka; hæfa, vel hæfa, og mjög vel hæfa. Umsækjendur hafi nú frest til þess að gera athugasemdir við hæfismat nefndarinnar, til 19. júní, sem hæfisnefndin tekur síðan tillit til.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði hæfisnefndina en hún mun skipa seðlabankastjóra. Nýr seðlabankastjóri tekur við af Má Guðmundssyni sem hefur gegnt stöðunni í áratug.
Hæfisnefndina skipa formaður Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale-háskóla og bankaráðsmaður í Landsbankanum, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs. Þórunn kvaðst bundin þagnarskyldu og gat ekki tjáð sig um málið þegar Vísir náði tali af henni í dag.
Umsækjendur um embætti seðlabankastjóra voru eftirfarandi í upphaflegri tilkynningu frá stjórnarráðinu:
Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóraÁsgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands
Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra
Gunnar Haraldsson, hagfræðingur
Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur
Gylfi Magnússon, dósent
Hannes Jóhannsson, hagfræðingur
Jón Daníelsson, prófessor
Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins
Katrín Ólafsdóttir, lektor
Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri
Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands
Vilhjálmur Bjarnason, lektor
Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra