Tveir leikir voru í Inkasso deild karla í fótbolta í dag. Magni og Víkingur Ólafsvík gerðu markalaust jafntefli en það var öllu meira fjör þegar Fjölnir tók á móti Þór Akureyri.
Markalaust var í hálfleik en gestirnir frá Akureyri voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og fengu færin til að skora. Inn vildi boltinn ekki.
Í upphafi síðari hálfleiks komst Fjölnir yfir og það með skrautlegu sjálfsmarki sem má sjá í spilaranum hér að ofan.
Jóhann Árni Gunnarsson, Ingibergur Kort Sigurðsson og Jón Gísli Ström bættu við mörkum áður en yfir lauk og lokatölur 4-0 sigur Fjölnis.
Öll mörk leiksins má sjá hér að ofan en Fjölnir er á toppnum með 19 stig á meðan Þór er í því fjórða með sextán.
