Í úttekt Hagstofunnar fyrir gistinætur ferðamanna í nýliðnum maí segir að heildarfjöldi þeirra hafi verið 656 þúsund, samanborið við 731 þúsund sama mánuð í fyrra. Þannig voru gistinætur á hótelum og gistiheimilum 412 þúsund, gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 155 þúsund og um 89 þúsund í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.
Þrátt fyrir 3% fækkun gistinátta á hótelum fjölgaði þeim um 2% á höfuðborgarsvæðinu, en um 57% allra hótelgistinátta voru á því svæði. Að sama skapi fjölgaði gistinóttum á Austurlandi og Norðurlandi, um 17% og 11%. Hins vegar fækkaði gistinóttum töluvert á öðrum landssvæðum borið saman við maí í fyrra og vegur þar þyngst 25% samdráttur á Suðurnesjum og 12% samdráttur á Suðurlandi.
Á tólf mánaða tímabili, frá júní 2018 til maí 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.405.800, sem er 2% aukning miðað við sama tímabil árið áður.
Nánar má fræðast um þróunina á vef Hagstofunnar.
