Ég hef auðvitað álpast á tónleika af og til í gegnum tíðina og einkum þegar þessir helstu hafa komið til landsins. Misgóðir. Lou Reed heitinn var til dæmis ekki eins góður gítarleikari og hann hélt sjálfur, Bowie var flottur og sjálfum sér líkur en Van Morrisson var eins og rjóður og bollulegur bóndi úr Biskupstungum og svo framvegis. Og svo sá ég Paul, Mozart 20. aldarinnar, á Anfield fyrir um 10 árum.
Allir á rassgatinu í Atlavík
En, ég hef ekki farið mikið á svona tónlistarhátíðir í seinni tíð. Rámar í Atlavík en þangað fór ég þrisvar í beit; sem var stórkostleg skemmtun. Með þá reynslu í farteskinu verður að segjast að Solstice kom mér í opna skjöldu. Þarna sá varla vín né dóp á nokkrum manni sem heitið getur. Meðan sá sem var edrú í Atlavík skar sig úr eins og hvítur hrafn á hrafnaþingi. Nánast hver kjaftur á eyrnasneplunum veltandi um brekkur hver um annan þveran. Held samt að engum hafi orðið meint af.
Hvað er verið að eltast við þetta? Vandinn við að rembast við að díla við þetta er löngu orðinn miklu meiri en vandinn sem menn telja sig vera að díla við. Er einhver að segja að ef ekki væri tónlistarhátíð þá væri engin neysla? Það stenst ekki orsakasamhengi og afleiðslu í 101 heimspekiáfanga.
Orðinn rapphundur á gamals aldri
Nema, ég sá á litla sviðinu einhvern flokk af röppurum og komst að því mér til furðu að ungdóminn allur kunni textana við tónlist sem var mér fullkomlega framandi. „A-ha, a-ha, já ég veit. A-ha, u-hm, já ég veit." Ég hef ekki gefið rappinu neinn sjéns, aldrei, en verð að éta hatt minn.Spámennirnir Patti og Róbert
Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Patti Smith, hef verið þjakaður þeirri ranghugmynd að hún sé einhvers konar viðhengi í rokksögunni. En, þurfti að éta það ofan í mig eins og svo margt annað þegar ég sá hana svo á sunnudagskvöldinu á Solstice. Þessi um það bil 75 ára gamla kona gaf ekki þumlung eftir, var ferlega flott.Og Robert Plant með geggjað band; ekki beinlínis eins og hann væri á grafarbakkanum. Glænýir hipphopparar og gamlir hippar voru með tárin í augunum þegar hann, maðurinn sem lagði línuna fyrir þungarokkið allt með sinni einstæðu röddu sem hvergi var farin að gefa sig, kyrjaði ný lög í bland við gamalt efni frá Led Zeppelin-árunum.

Plant sagði áhorfendum í upphafi sinna tónleika að hann hafi spilað á eftirminnilegum tónleikum í næsta húsi [Laugardalshöllinni]. Nanna dóttir mín spurði mig hvort ég hefði verið þar? 1970? Næstum því. Næstum því, góða mín.
Fjöður í hatt Reykjavíkurborgar
Með öðrum orðum og til að gera langa sögu stutta var allt þetta til hinnar mestu fyrirmyndar. Ég hitti Pawel í góðum gír og Dagur B. var þarna í góðum fílíng með regnhlíf sem hækju. Var kannski ekki að taka hipphoppið á þetta eins og ég alla leið en dillaði sér í takt. Engin Vigdís samt.
Ungdómurinn sem og aðrir gestir gengu vel um og hreinsunardeildin fljót að grípa inní ef einhver missti gosglas í grasið. Lærdómurinn er í raun sá að þeir hinir fullorðnu sem voru á rassgatinu í Atlavík fyrir 30 árum plús en vilja nú hafa vit fyrir yngri kynslóðinni eru hreinlega kjánalegir í því bauki sínu.
Niðurstaðan er sú að að það hljóti að vera fín fjöður í hattinn fyrir Reykjavík að vera með tónlistarhátíð af þessu kaliberi á dagskrá innan sinna borgarmarka.
