Í þættinum Sprengisandi í morgun tjáði hún sig í fyrsta sinn um málið og sagði að með álitinu væri vegið að tjáningarfrelsi þingmanna. Þórhildur sagði Alþingi hafa sett niður í málinu.
„Í staðin fyrir að rannsaka aksturgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar þá festa þeir sig í orðhengilshætti í mínum ummælum um að það sé tilefni til að rannsaka hvort hann hafi framið refsivert brot,“ segir Þórhildur Sunna.
Í þættinum vitnaði Þórhildur í mál sem siðanefndin hefur vísað frá og vitnaði meðal annars í Klaustursmálið.
„Þetta er sama forsætisnefnd og klúðraði að öllu leyti allri málsmeðferð í Klaustursmálinu en kýs að hengja sig í orðhengilshátt og gildisdóma um hvernig ég tjái mig en ekki um hvað eða hvort það sé satt eða logið og lítur fram hjá öllum rökum um tjáningarfrelsi þingmanna og mínum skyldum til að tjá mig um atburði líðandi stundar,“ sagði Þórhildur Sunna.
Hún segir nefndina gjörspillta og hafnar álitinu.
„Ég kalla þá forsætisnefnd gjörspillta á samtryggingu karlaklíkunnar sem neitar að taka afstöðu til nokkurs nema framkomu ungrar konu í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl,” sagði Þórhildur.
Hún segir niðurstöðu siðanefndar gildisdóma á sína framsetningu og gagnrýnir nefndina fyrir að færa engin rök fyrir því hvernig hún hefði á annan hátt átt að tjá sig um málið.
Þá íhugar Þórhildur hvort hún geti farið með málið lengra.
„Ég á eftir að skoða hvaða leiðir ég hef til að bregðast við þessu úrskurði. Mér finnst þetta styrkja samtrygginguna enn frekar í sessi á Alþingi Íslendinga og sýna hvað þessi stofnun virðist vera algjörlega óhæf um að taka á spillingu í sínum eigin ranni,” sagði Þórhildur Sunna.