Teodoro Locsin utanríkisráðherra Filippseyja segir að stjórnvöld þar muni ekki leyfa Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að rannsaka stríðið gegn fíkniefnum. Þá komi til greina að Filippseyjar dragi sig út úr Mannréttindaráðinu.
Mannréttindaráðið samþykkti í vikunni ályktun sem Ísland hafði lagt fram í ráðinu um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. Með samþykkt ályktunarinnar lýsir mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvetur stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku.
Sjá einnig: Duterte segir íslensku þjóðina bara borða ís
Embættismenn á Filippseyjum hafa brugðist ókvæða við samþykktinni og hefur reiðin einkum beinst að Íslandi. Utanríkisráðherrann hélt uppteknum hætti á Twitter í nótt og sagði koma til greina að Filippseyingar færu að fordæmi Bandaríkjamanna og drægju sig úr mannréttindaráðinu.
No embassy in Iceland. Nor does Iceland have an embassy here. Iceland took the place of the US after it withdrew from the Human Rights Council. I think we need to follow America more. https://t.co/6brbCzores
— Teddy Locsin Jr. (@teddyboylocsin) July 13, 2019
Rodrigo Duterte forseti Filippseyja var, eins og öðrum embættismönnum í landinu, misboðið vegna samþykktarinnar. Haft var eftir honum að Íslendingar hafi ekki skilning á aðstæðum á Filippseyjum og að þjóðin gerði lítið annað en að borða ís.
Locsin tók undir með forsetanum í gær - en bætti við að þó að landið sé lítið þá séu þar glæpir, og meðfram þeim blómlegur glæpasagnaiðnaður.
You gotta admit, this is pretty good and sums up Iceland quite neatly. But there is crime its tininess notwithstanding; and along with crime a blossoming crime novel industry. https://t.co/XTRmz7lp86
— Teddy Locsin Jr. (@teddyboylocsin) July 13, 2019