Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti í gær áform um lagabreytingu á lögum um neytendalán á samráðsvef stjórnvalda. Starfshópur um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja var settur á laggirnar fyrir ári og er fyrirhuguðu frumvarpi ætlað að bregðast við niðurstöðum hópsins.
Niðurstaða starfshópsins var sú að smálán væru þau lán sem valda neytendum mestum vanda og tillögur hópsins eru þær að óheimilt verði að innheimta gjöld og kostnað af lánunum sem er hærri en lögbundið hámark af hlutfallstölu kostnaðar. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að hægt verði að krefja þá sem taka smálán um óhóflegan kostnað.
Opið er fyrir umsagnir um lagabreytinguna á vef Alþingis til 2. ágúst 2019.
