Söngkonan sívinsæla þénaði á umræddu tímabili 185 milljónir Bandaríkjadala, en það eru rúmlega 23,2 milljarðar íslenskra króna.
Swift er þannig ofar á listanum heldur en milljarðamæringurinn Kylie Jenner, en hún þénaði um 170 milljónir dollara, um 21,4 milljarða króna. Það er því alveg ljóst að söngkonan á fyrir salti í grautinn, eins og sagt er, og rúmlega það. Raunar gæti hún keypt hátt í 2 milljónir tonna af salti með tekjum síðustu tólf mánaða, sé miðað við meðalverð á salti í Bandaríkjunum.
Efstu tíu sætin skipa ýmsir heimsfrægir einstaklingar, en þó kann að koma einhverjum á óvart hverjir rata í efstu sæti listans.
Tíu launahæstu stjörnur heims:
Taylor Swift, tónlistarkona – 185 milljónir dollara
Kylie Jenner, áhrifavaldur – 170 milljónir dollara
Kanye West, tónlistarmaður og fatahönnuður – 150 milljónir dollara
Lionel Messi, knattspyrnumaður – 127 milljónir dollara
Ed Sheeran, tónlistarmaður – 110 milljónir dollara
Cristiano Ronaldo, knattspyrnumaður – 109 milljónir dollara
Neymar, knattspyrnumaður – 105 milljónir dollara
The Eagles, hljómsveit – 100 milljónir dollara
Dr. Phil McCraw, sjónvarpsmaður – 95 milljónir dollara
Canelo Alvarez, boxari – 94 milljónir dollara
Kynjahallinn á listanum mikill
Þrátt fyrir að konur vermi tvö efstu sætin eru kynjahlutföllin á listanum ekki upp á marga fiska, að minnsta kosti ekki í augum þeirra sem vilja hafa þau sem jöfnust. Aðeins 16 konur komast á listann.Þannig eru níu konur í flokki tónlistarfólks á móti 29 körlum, fjórar konur á móti átta körlum í flokki áhrifavalda (e. personalities) og tvær konur á móti níu körlum í flokki leikara.
Hlutföllin eru aðeins jöfn í einum flokki listans, en það er flokkur rithöfunda. Þar er einn karl og ein kona, J.K. Rowling situr í 13. sæti listans með 92 milljónir dollara en starfsbróðir hennar, James Patterson, þénaði 70 milljónir og situr í 28. sæti.
Þá eru þrír flokkar þar sem karlmennirnir eru allsráðandi. Það eru flokkar íþróttafólks með 34 karlmönnum og grínistaflokkurinn sem inniheldur tvo karlmenn. Að lokum má nefna flokk töframanna en hann samanstendur af einum manni, töframanninum David Copperfield sem var með 60 milljónir Bandaríkjadala í tekjur síðustu 12 mánuði.
Listann í heild sinni má sjá hér.