Druslugangan var gengin í níunda sinn í dag. Skipuleggjendur göngunnar segja að hugarfarsbreyting hafi orðið í samfélaginu frá því að gangan fór fyrst fram, en þó sé þörf á kerfisbreytingu. Þolendur segja stuðninginn, sem sýndur var í dag, mikilvægan.
Druslugangan er gengin til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis og er tilgangurinn meðal annars að skila skömm þolenda þangað sem hún á heima.
Einn af stjórnendum göngunnar segir að hugarfarsbreyting hafi orðið í samfélaginu en þörf sé á kerfisbreytingu.
„Í ár erum við að leggja áherslu á það að þetta er í öllum samfélagshópum, gerendur eru alls staða og þetta eru fjölskyldumeðlimir, lögreglumenn, lögfræðingar og í öllum stéttum. Þetta er samfélagsvandamál og þess vegna erum við hér af því að þetta er mjög stórt kerfisbundið vandamál sem við þurfum að vinna í saman,“ sagði Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachman.
Hvers vegna gangið þið í dag?
„Því ég er þolandi,“ sagði Inger Schoöth“
Hvaða þýðingu hefur gangan fyrir þig?
„Þetta er bara stuðningur í allar áttir, ekki spurning. Við stöndum saman og við neitum þessu, við viljum ekki taka þátt í þessu lengur,“ sagði Inga.
„Ég hef gengið hér síðustu fjögur ár með mömmu en við erum báðar brotaþolar. Stuðningurinn skiptir öllu máli,“ sagði Magdalena Katrín Sveinsdóttir
„Við göngum í dag til þess að sýna samstöðu og taka afstöðu. Það er mjög mikilvægt að mæta hingað og taka afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi og sýna þessa samstöðu sem þarf í samfélaginu til að tækla þessi málefni,“ sögðu Auður Albertsdóttir og Sigyn Jónsdóttir.
