Skoðun

Árekstur

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Samkvæmt skoðanakönnunum er alltaf verið að keyra aftan á Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðisflokkurinn sífellt að aka yfir eigin flokksmenn. Og aftan á málgagn sitt. Alltaf er flokkurinn í órétti sama hvað á gengur, en það er allt í lagi því allir árekstrar eru út af einhverjum vitleysing sem er bara að reyna að skemma fyrir flokknum. Nú virðist til dæmis miðstöðin ónýt í apparatinu og miðstýringin leitar aðeins til hægri.

Afleiðing þessa er að flokkurinn þjappast saman, hann er að verða óttalegur stubbur. Hann er orðinn eins og kubbslegur hundur. En geltir samt. Reyndar hefði hann ekki nokkra ástæðu til að gelta nema vegna þess að eftir einn áreksturinn hrökk af vagninum einn vitleysingur. Sú er í eilífu skaðabótaþvargi við flokkinn, sem á sér ekki viðreisnar von.

Í vagni Sjálfstæðisflokksins, í farangursgeymslu nánar tiltekið, eru tveir vitleysingar. Það var klókt hjá flokknum að hafa þá í afturendanum, þannig taka þeir alltaf dálítið af högginu sem myndast þegar aftanákeyrslurnar dynja á flokknum. Þessir vitleysingar skriðu sjálfir ofan í skottið þannig að ekki er við Sjálfstæðisflokkinn að sakast í þeim efnum og reyndar kemur þetta honum einnig til góða með þeim hætti að hann þarf ekki að vera með þessi nútíma varadekk sem flestir kalla aumingja.

Alvarlegustu árekstrarnir sem Sjálfstæðisflokkurinn lendir í eru við áttavillta anarkista á óskoðuðum hippavagni. En það eru nú ekki minnstu vitleysingarnir. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé í órétti ná farþegarnir í hinu ökutækinu að slíta æruna hver af öðrum með því að saka þann sem var undir stýri um að hafa verið ölvaður. Samt skiptust þeir á að aka.

Já, vitleysingarnir eru jafnvel búnir að eyðileggja langþráð sumarfrí Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×