Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sakar geimstofnun landsins að ljúga til um umfang eyðingar Amasonfrumskógarins. Stofnunin skaði orðspor landsins með því að birta gögn um það sem hún segir mikla aukningu í skógareyðingu.
Brasilíska geimstofnunin Inpe birti gervihnattargögn í vikunni sem sýndu að meira en þúsund ferkílómetrar regnskógar hefðu verið ruddir fyrstu fimmtán daga júlímánaðar og að það væri aukning um 68% miðað við allan júlímánuð í fyrra, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Við þessar tölur vill Bolsonaro forseti ekki fella sig. Hann fullyrti við erlenda fréttamenn í gær að tölurnar endurspegluðu ekki raunveruleikann og að hann ætli sér að ræða við forstjóra stofnunarinnar til að ræða málið.
Inpe stendur við niðurstöður sínar og segir tölurnar 95% áreiðanlegar. Bolsonaro hefur rekið stefnu sem hefur liðkað fyrir því að skógurinn sé ruddur, oft fyrir nautgriparæktun. Þannig hefur verið slakað á eftirliti með ólöglegu skógarhöggi.
Hægriöfgamaðurinn Bolsonaro fullyrti einnig við erlendu fréttamennina en hungur þekktist ekki í Brasilíu þrátt fyrir að matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna áætli að um 5,2 milljónir Brasilíumanna búið við hungur.
