Þegar skipti Browns yfir í Raiders frá Steelers gengu í gegn þóttu það kjarakaup hjá núverandi vinnuveitendum sem virðast vera að kynnast öllum þeim vandræðum sem fylgja honum þessa dagana. Hann hefur ekki farið leynt með óbeit sína á fyrrverandi liðsfélögum sínum og starfsfólki hjá Pittsburgh Steelers sem endurspeglaðist best í því þegar hann gaf ekki kost á sér í lokaleik tímabilsins í fyrra. Brown virðist því vera búinn að brenna allar brýr að baki sér í Pittsburgh.
Það efast enginn um hæfileikana sem Brown býr yfir en efasemdir annarra hafa drifið hann áfram frá fyrsta degi innan deildarinnar. Brown féll niður í sjöttu umferð nýliðavalsins í NFL-deildinni og var valinn með 195. valrétt fyrir níu árum. Eftir að hafa lítið komið við sögu á fyrsta ári sínu innan deildarinnar greip hann tækifærið á því næsta og hefur verið besti útherji deildarinnar undanfarin sex ár.
Tvívegis hefur hann verið sá útherji sem er með flesta jarda yfir tímabilið og í fyrra var enginn sem greip fleiri snertimarkssendingar en Brown þrátt fyrir að hann sé yfirleitt með besta varnarmann andstæðinganna á sinni vakt.
Brown sem er litríkur karakter mætti með látum í æfingabúðir Raiders því að hann mætti á loftbelg á fyrstu æfingar liðsins en fljótlega fóru vandræðin að skjóta upp kollinum. Hann hefur þótt ófagmannlegur á æfingum, sýnir litla athygli á fundum liðsins og mætir iðulega seint.

Deildin breytti nýlega reglum um hjálma til að bæta öryggi leikmannanna sem Brown segir að skerði sjón sína. Brown er ekki sá eini sem hefur kvartað, leikstjórnendurnir Tom Brady og Aaron Rodgers þurfa einnig að skipta um hjálm en Brown virtist ekki tilbúinn að aðlagast því.
Sjálfur reyndi Brown að líma til gamla hjálminn sinn í von um að fá að notast við hann án árangurs eftir margar tilraunir til að smygla gamla hjálminum inn á völlinn sem endaði með því að hann fór í verkfall og hætti að mæta á æfingar.

Þá hefur Brown einnig ratað á síður fjölmiðlanna vegna vandræða utan vallar. Honum tókst í vor að fá mál gegn sér niðurfellt gegn greiðslu eftir að hann henti húsgögnum niður af fjórtándu hæð í íbúð sinni í Miami síðasta vor þar sem litlu mátti muna að húsgögnin lentu á ungum dreng.
Þá steig kokkur fram á dögunum og lýsti yfir því að Brown skuldaði honum um fimm milljónir íslenskra króna fyrir þjónustu sem Brown þáði á síðasta ári, stuttu eftir að þjálfari kærði hann fyrir að hafa neitað að greiða honum um milljón íslenskra króna fyrir æfingabúðir í apríl síðastliðnum.