„Við vorum að komast hjá dauðanum,“ heyrist í stúlkunni sem náði atvikinu á myndband. Mennirnir sem voru í tækinu voru þó hinir rólegustu eftir atvikið, þó einn hafi signað sig með bros á vör.
Eftir atvikið var tækið tekið úr umferð og enginn slasaðist. Þó mátti heyra á vinkonum mannanna að þær voru nokkuð eftir sig eftir atvikið, enda mátti litlu muna að verr færi.
Á vef AOL kemur fram að tækið hafi verið lagað og sé komið í gagnið á ný. Umrætt tæki er vinsælt í skemmtigörðum víða um heim þó samskonar atvik séu fátíð.
Uppfært kl. 15.49: Einar Árnason, talsmaður Taylor Tívolí Ísland, bauðst til að útskýra hvað hann telji að hafi farið úrskeiðis á myndbandinu. Hann segir að svona óhöpp eigi ekki að geta gerst ef farið sé eftir öryggiskröfum.
Einar segir að á hverjum degi sé teygjan yfirfarin í Taylor Tívolí og henni skipt út reglulega, líkt og reglur kveða á um, og þá séu öll tækin tekin út af vinnueftirlitinu. Hann óttast að í tilviki bandaríska skemmtigarðsins hafi aðstandendur mögulega sparað sér aura á kostnað öryggis.