Nokkrir dagskrárliðir Menningarnætur
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í 36. skipti í ár og verður hlaupið frá og að Lækjargötu. Fimm mismunandi vegalengdir verða í boði og hægt er að skrá sig hér. Hlaupið hefst klukkan 08:40 og mun því ljúka um miðjan daginn.Skemmtiskokk verður einnig í boði en það hefst klukkan 12:15 og verður hægt að velja um tvær vegalengdir, þrjá kílómetra og sex hundruð metra.
Hátíðin verður sett klukkan 13:00 á Hagatorgi af Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur. Þegar setningunni er lokið verður dansdagskrá á Hagatorgi og þar mun meðal annars þjóðdansahópur frá Assam héraði á Indlandi stíga á stokk. Danshópurinn er hér á landi sérstaklega í tilefni Menningarnætur.
Brauðtertusamkeppni fer fram í ár í Listasafni Reykjavíkur og mun standa yfir frá klukkan 14:00 til 16:00. Þar verður keppt í þremur flokkum: Fallegasta brauðtertan, Frumlegasta brauðtertan og Bragðbesta brauðtertan. Þeir sem vilja taka þátt geta skráð sig með því að senda póst á braudtertanlifir@gmail.com.

Fjölskyldujóga verður haldið í Borgarbókasafninu í Grófinni á milli klukkan 15:00 og 16:00. Þar getur öll fjölskyldan komið saman og gera saman æfingar.
Tónaflóð Rásar 2 fer fram í 22. skiptið í ár við Arnarhól. Það hefst klukkan 19:45 og lýkur klukkan 23:00. Þar munu ClubDub, GDRN og Auður, Vök, Valdimar Hjaltalín og Stjórnin stíga á stokk.
Bylgjan býr upp á Garðapartý í Hljómskálagarðinum og verður boðið upp á fríar veitingar á meðan birgðir endast. Tónlistarveislan byrjar klukkan 18:30 og mun ljúka 22:45 sem gefur fólki nægan tíma til að rölta að Kvosinni til að koma sér fyrir fyrir flugeldasýninguna. Meðal þeirra sem munu stíga á stokk verða Jón Jónsson og Friðrik Dór, Nýdönsk og Herra Hnetusmjör.
Hip hop hátíð verður haldin í fjórða skipti í ár og verður nú haldin á Miðbakkanum. Hún hefst klukkan 15:00 og lýkur klukkan 19:00. Hægt verður að fá sér matarbita á Götubitanum sem mun snúa aftur á Miðbakka á Menningarnótt. Þar mun fjöldi matarvagna bjóða upp á dýrindis veitingar og varða á staðnum frá klukkan 13:00 til 23:00.
Árleg flugeldasýning Menningarnætur hefst að venju klukkan 23:00 og mun vara í um það bil 10 mínútur.
Samgöngur og aðgengi
Miðborgin verður nánast öll lokuð bílaumferð frá því klukkan 7 morguninn 24. ágúst og þar til klukkan 2 eftir miðnætti þann 25. ágúst. Þá verður lokað fyrir bílaumferð vestan Kringlumýrarbrautar frá klukkan 20:00. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að kynna sér götulokanir vel og nýta sér almenningssamgöngur.Frítt verður í Strætó Menningarnótt og verður keyrt eftir hefðbundinni leiðartöflu þar til klukkan 22:30 um kvöldið. Þá mun strætó ganga til klukkan 01:00 frá Sæbraut um leið og athöfn lýkur við Arnarhól.
Sérstök bílastæði verða fyrir fatlaða og hreyfihamlaða á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Auk þess verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Þá verða sérstök salerni fyrir fatlaða á hátíðarsvæðinu.