Viðskipti FISK-Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, keypti í gær nær allan 8,5 prósenta hlut Gildis lífeyrissjóðs í Brimi, áður HB Grandi, fyrir um fimm milljarða.
Fyrir eignarhlutinn í Brim fékk Gildi meðal annars afhent hluta af bréfum FISK-Seafood í Högum, en fyrirtækið átti samanlagt tæplega 4,6 prósenta hlut í smásölurisanum.
Sala Gildis kemur í kjölfar kaupa Brims á sölufélögum í Japan, Hong Kong og Kína. Seljandinn var ÚR sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, stærsta hluthafa Brims.
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi, segir sjóðinn ekki eiga samleið með Brimi enda hafi hann haft áhyggjur af stjórnarháttum í útgerðarfélaginu.
„Það hefur verið aðdragandi að þessari ákvörðun og við höfum haft auknar áhyggjur af stjórnarháttum í félaginu og þeirri vegferð sem stjórn og stjórnendur hafa verið á að undanförnu. Samþjöppun eignarhalds í félaginu vegna viðskiptanna olli okkur einnig áhyggjum.“
Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims, fagnar því að í hluthafahóp sé kominn þátttakandi í iðnaðinum með reynslu og þekkingu á rekstri í sjávarútvegi.
„Það er gott að viðskipti eigi sér stað á markaði með bréf í félaginu. Það sýnir lífsmark. [...] Stjórn Brims virðir að sjálfsögðu ákvörðun Gildis og hún er skiljanleg í ljósi forsögunnar,“ segir Kristján.
