Johnson fundaði með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, Michel Barnier, aðalsamningamann ESB gagnvart Bretlandi, og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, í dag. Eftir fundina hélt Johnson því fram að nýr útgöngusamningur væri byrjaður að sjá dagsins ljós.
„Já, það eru góðir möguleikar á samningi, já ég get séð móta fyrir því, allir sjá um það bil hvað er hægt að gera,“ sagði Johnson við blaðamenn eftir fundina.
Leiðtogar Evrópusambandsins sögðu aftur á móti að breski forsætisráðherrann hefði ekki lagt neitt nýtt fram, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Nýjar tillögur um samninga þyrftu að vera í samræmi við samninginn sem breska þingið hefur hafnað í þrígang.
Bettel lét Johnson heyra það á blaðamannafundi sem Johnson hætti við að taka þátt í vegna hóps mótmælenda sem gerði hróp að honum. Sagði hann að Johnson bæri ábyrgð á að leysa úr þráteflinu og að hann hefði framtíð allra Breta í höndum sínum.
„Þú getur ekki haldið framtíðinni í gíslingu fyrir flokkspólitíska hagsmuni,“ sagði Bettel.
Reuters segir að mótmælendurnir hafi meðal annars verið breskir eftirlaunaþegar búsettir í Lúxemborg. Þeir hafi heyrst hrópa „fasisti“, „stöðvið valdaránið, segið sannleikann“ og „Skammastu þín, Boris“ að Johnson.
Eftir á bar Johnson því við að það hefði verið ósanngjarnt gagnvart Bettel að hann tæki þátt í blaðamannafundinum vegna mótmælendanna. Bettel tók engu að síður við spurningum blaðamanna við hlið auðs ræðupúlts þar sem Johnson átti að standa.
“I don't think it would have been fair to the prime minister of Luxembourg"
— BBC Politics (@BBCPolitics) September 16, 2019
Boris Johnson explains why he did not take part in a press conference alongside Luxembourg PM Xavier Bettel saying "there was clearly going to be a lot of noise” from protesters https://t.co/IdVgyC8rBd pic.twitter.com/PcxlmXT2gO