Skoðun

Fegurðin á steikar­grillinu

Árni Helgason skrifar
Helsti áfangastaður næturgesta í miðbæ Reykjavíkur síðustu áratugi, Nonnabiti, tilkynnti óvænt um daginn að staðnum hefði verið lokað og fasteignin seld. Ákvörðun sem allir skilja en syrgja í senn enda leynist fegurðin stundum á steikargrillinu.

En svona er víst gangur lífsins og væntanlega stutt í að þarna verði opnaður einn af þessum djúpt hönnuðu veitingastöðum með hrárri sjónsteypu og innréttingum úr sjóreknu timbri. Súrbjór á krana og smáréttir með erfið nöfn. Það er allt gott og blessað en ég mun sakna sjarmans af því að sjá eigandann standa við grillið, spyrja hvort það sé allt á beikonbát og gefa sig hvergi þegar maður reynir að fiska upp úr honum hvað sé í sósunni. Stöku gul maísbaun á sundi gaf vissulega vísbendingar og einhverjir matgæðingar þóttust greina arómat en leyndarmálið stendur enn. Til dægradvalar voru sósuvætt Séð og heyrt blöð sem kipptu manni inn í löngu liðna tíma íslensks frægðarfólks. Þetta var næturbiti sem stóð með manni langt fram á næsta dag.

Bátaútgerð Nonna í miðbænum hófst snemma á tíunda áratugnum, á gullöld sjoppunnar þegar skyndibitinn átti að vera djúsí, gosdrykkur með og jafnvel eitthvað sætt í eftirrétt, helst allt á tilboði. Þetta var áður en lífsstílsöflin náðu völdum hér á landi, stofnuðu til illdeilna við brauðmeti og sósur og tókst að sannfæra þjóðina um að lykilllinn að hamingju væri að svelta sig langt fram eftir degi og stærstan hluta kvöldsins líka. Í þessari borgarastyrjöld hefur Nonnabiti alltaf verið í andspyrnuhreyfingunni og trúr sínu slagorði, að vera góður biti frekar en myndefni fyrir Instagram-færslur.

Takk fyrir samfylgdina.

Og að sjálfsögðu: Allt á beikonbát!


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×