Koma verður á landamæraeftirliti milli Írlands og Norður-Írlands ef ekki verður samið um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í viðtali við Sky í gær.
Þar hafnaði hann einnig alfarið því að ESB beri einhverja ábyrgð ef illa fer við útgönguna, það hafi „ekki verið ESB sem fann upp Brexit“.
Landamærin á Írlandi hafa verið eitt helsta þrætueplið í tengslum við útgönguna. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur hafnað því að hafa svokallaða baktryggingu á landamærunum. Dominic Raab utanríkisráðherra tekur í sama streng og segir það ótækt að aðrar reglur verði í gildi á NorðurÍrlandi en annars staðar í landinu.
Unnið sé hörðum höndum að samkomulagi við ESB í þá átt. Juncker segir ESB hins vegar verða að tryggja eigið öryggi. „ Dýr sem kemur frá Norður-Írlandi til Írlands án landamæraeftirlits er komið eftirlitslaust inn í ESB. Það mun ekki gerast. Við verðum að verja heilbrigði og öryggi þegna okkar.“
