Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur ákveðið að sekta Ríkisútvarpið fyrir það uppátæki hljómsveitarinnar Hatara að veifa borða í fánalitum Palestínu í græna herberginu á úrslitakvöldi Eurovision í Ísrael í maí.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef RÚV en sektin nemur 5000 evrum að því er segir í svari Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV, við fyrirspurn Vísis. Það nemur tæpum 700 þúsund krónum og er lágmarkssekt sem EBU leggur á sjónvarpsstöðvar brjóti þær reglur keppninnar.
Fram kemur í yfirlýsingu RÚV að stofnunin hafi mótmælt þeim fyrirætlunum EBU um að sekta Ríkisútvarpið fyrir framkomu Hatara.
Var óánægju lýst með meðferð málsins og fyrirhugaða niðurstöðu í bréfi til EBU og það sagt röng og ranglát niðurstaða að sekta Ríkisútvarpið fyrir brot á reglum þar sem stofnunin hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að tryggja að farið yrði að reglum keppninnar.
Þá er þeirri skoðun RÚV lýst að þær sjónvarpsstöðvar sem taki þátt í Eurovision muni aldrei geta komið alveg í veg fyrir það að listamenn á þeirra vegum geri eða segi eitthvað sem gæti hugsanlega brotið í bága við reglur keppninnar.
Fyrr í mánuðinum staðfesti RÚV að stofnunin muni taka þátt í Eurovision á næsta ári sem fer fram í Rotterdam í Hollandi. Þá hefur afgreiðsla EBU á framkomu Hatara ekki frekari eftirmála, að því er fram kemur í fyrrnefndri yfirlýsingu.
RÚV fær 5000 evra sekt vegna Palestínufána Hatara

Tengdar fréttir

RÚV staðfestir þátttöku Íslands í Eurovision og svona verður fyrirkomulagið í Söngvakeppninni
RÚV staðfesti í gær þátttöku í Eurovision söngvakeppninni sem haldin verður í Rotterdam í maí á næsta ári.

Hafa ekki tekið „lokaákvörðun“ um mögulega refsingu Hatara
Framkvæmdastjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur enn ekki tekið lokaákvörðun um möguleg viðurlög við Palestínufánum hljómsveitarinnar Hatara, fulltrúa Íslands í Eurovision í ár, sem sveitin hélt á milli sín í beinni útsendingu keppninnar í maí.

Sekt vegna Palestínufána Hatara yrði ekki há
Viðræður um hugsanlega sektargreiðslu RÚV vegna framkomu hljómsveitarinnar Hatara í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí eru í fullum gangi, samkvæmt Rúnari Frey Gíslasyni verkefnastjóra Söngvakeppninnar.