Skoðun

Amma

Kolbeinn Marteinsson skrifar
Einhver mesta gæfa mín í lífinu var amma mín Þóra Helgadóttir. Við mynduðum strax einkar náið og sterkt samband enda bjó ég í kjallaranum hjá henni ásamt móður minni fyrstu ár ævinnar. Við sambúð í slíku návígi skapast sterk tengsl, gagnkvæm ást og virðing sem helst ævina á enda og auðgar lífið. Amma var ankerið í lífi mínu sem alltaf var til í að sjá mína hlið og tala máli mínu jafnvel þó ég hefði hagað mér illa.

Hún var líka skemmtileg, falleg og lífsglöð kona sem gerði allt með bravúr hvort sem það voru matarboð, ferðalög eða samverustundir með fjölskyldunni.

Eitt sinn var ég nærri búinn að drekkja henni þegar hún ákvað að synda með mig á bakinu, ósyndan fimm ára gamlan, yfir sundlaug Kópavogs. Þegar komið var í dýpri endann fylltist ég ofsahræðslu og tróð ömmu á bólakaf. Ég sé enn ljóslifandi fyrir mér þegar sundlaugarvörðurinn sparkaði af sér klossunum og stakk sér til sunds fullklæddur og bjargaði okkur á þurrt. Síðar hló hún að þessu og sagði mig einu manneskjuna sem hefði næstum banað sér.

Ég hef engan þekkt sem var jafn tilfinningalega tengdur íslenskri veðráttu og amma. Hún gat æmt og skræmt í rigningartíð og sudda en um leið og sólin braust fram var hún búin að dekka borð á stéttinni framan við húsið hlæjandi og glöð.

Amma greindist með krabbamein 74 ára gömul. Hún tókst á við það eins og um tímabundin veikindi væri að ræða allt þar til hún lést sumarið 1996.

Ég hugsa til hennar á hverjum degi en þannig lifum við áfram í hjörtum ástvina. Ég veit líka að hún hefði ekki tekið því illa að fá um sig einn bakþanka.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×