Forstjóri Gamma hætti fyrir fjórum vikum og sjóðsstjóri Gamma:Novus sagði sömuleiðis upp störfum á dögunum.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Máni Atlason tók við sem framkvæmdastjóri félagsins og sjóðsstjóri Novus um helgina.
Á mánudagsmorgun fengu fjárfestar og kröfuhafar í Gamma:Novus og Gamma:Anglia fasteignaþróunarsjóðum bréf um grafalvarlega stöðu sjóðanna þar sem kom fram að eignir Novus höfðu rýrnað um 99% og Gamma:Anglia um 60 prósent. Máni Atlason framkvæmdastjóri félagsins segir að stjórnendur félagsins muni eiga fund með eigendum í sjóðunum og kröfuhöfum á mánudag. Nú sé áhersla lögð á að bjarga verðmætum.

„Vænt sala eigna Upphafs fasteignafélags sem var í rekstri hjá Gamma:Nova hefur verið endurmetið, kostnðarahækkanir hafa verið vanmetnar og svo notum við aðra aðferð til að meta vaxtakostnað félagsins til framtíðar. Það er svipuð staða með Gamma:ANglia en ráðgjafar okkar í Bretlandi segja að þar sé óviss staða með verkefni og því hafa þau verið færð niður“ segir Máni. Máni segir að stjórnendur Gamma hafi látið Fjármálaeftirlitið vita af stöðunni fyrir nokkrum dögum og þá verði fundur með eigendum í sjóðunum og kröfuhöfum á þriðjudag. Mikilvægt sé að rannsaka hvað fór úrskeiðis.

„Við lítum á málið mjög alvarlegum augum og í raun og veru er ekkert sem við sjáum að geti valdið því að þetta fari svona mikið niður nánast í ekki neitt.“
Stjórn sjóðsins sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar hún lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með niðurstöðu endurmatsins og felur framkvæmdastjóra að fylgjast með framvindu málsins. Festa lífeyrissjóður er einnig meðal fjárfesta í Gamma:Novus.
Gylfi Jónasson framkvæmdastjóri sjóðsins sagði í samtali við fréttastofu í dag að bókfært tap sjóðsins vegna niðurfærslunar sé um 300 milljónir. Sjóðurinn sé afar ósáttur með stöðuna og hafi leitað lögfræðilegs álits um hvort farið hafi verið út fyrir heimildir. Það þurfi að rannsaka hvað fór úrskeiðis.