Bandaríski þingmaðurinn Elijah Cummings er látinn. Hann dó vegna langvarandi heilsukvilla. Samkvæmt yfirlýsingu frá skrifstofu hans, lést hann í morgun á sjúkrahúsi í Baltimore. Hann var 68 ára gamall.
Cummings hafði setið á þingi fyrir kjördæmi sitt í Baltimore, þar sem hann fæddist frá 1996 en þar áður hafði hann setið á þingi Maryland í fjórtán ár. Hann var formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og kom því að nokkrum rannsóknum þingsins á ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Það hefur forsetinn ekki verið sáttur við og hefur hann gagnrýnt Cummings og kjördæmi hans ítrekað á undanförnum mánuðum.
Sjá einnig: Trump sagði umdæmi þingmanns „ógeðslegt og morandi í rottum og nagdýrum“
Baltimore Sun segir Cummings hafa farið í ótilgreinda aðgerð nýverið og hann hafi ekki snúið til vinnu í kjölfar hennar. Samkvæmt New York Times var Cummings oft í hjólastól og notaðist við súrefni. Þá var hann frá þingi í þrjá mánuði árið 2017 eftir hjartaaðgerð.
