Sönderjyske hafði betur gegn GOG í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Álaborg vann þægilegan sigur á Fredericia.
Sönderjyske vann sterkan útisigur á GOG 24-30 eftir að hafa verið 11-10 undir í hálfleik.
Sveinn Jóhannsson og Arnar Birkir Hálfdánsson skoruðu eitt mark hvor fyrir Sönderjyske. Hjá GOG skoraði Arnar Freyr Arnarsson fjögur mörk og Viktor Gísli Hallgrímsson varði eitt skot í þann tíma sem hann stóð í markinu.
Ríkjandi meistarar í Álaborg tóku á móti Fredericia og unnu fimm marka sigur 29-24. Álaborg var yfir allan leikinn og var sigurinn aldrei í hættu.
Í Noregi skoraði Sigvaldi Guðjónsson fimm mörk þegar Elverum sló Kristiansand út úr bikarnum.
Elverum vann fjögurra marka sigur 29-25 eftir að hafa verið 13-12 yfir í hálfleik.
Sænsku meistararnir í Sävehof töpuðu á útivelli fyrir Malmö.
Ágúst Elí Björgvinsson var með um þrjátíu prósenta markvörslu í liði Sävehof sem tapaði 28-24.
