Verið er að mótmæla sitjandi ríkisstjórn, en mótmæli hófust á fimmtudag þegar meira en 250 þúsund manns gengu frá störfum sínum og söfnuðust saman í kröfugöngu. Mótmælin hófust friðsamlega en ekki leið að löngu þar til til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda. Einnig hafa fréttir verið sagðar af skemmdarverkum og þjófnaði.
Duque sagði að öryggissveitir myndu taka höndum saman með lögreglunni til að gæta öryggis.

Minnst þrír hafa látist síðan mótmælin hófust en mikil reiði hafði byggst upp vegna spillingar og mögulegra efnahagsþrenginga. Útgöngubann var sett á í Bógóta, höfuðborg landsins, á föstudag en það kom ekki í veg fyrir frekari mótmæli og sneru mótmælendur aftur út á götur daginn eftir.
Þegar mótmæli hófust að nýju á laugardag notaði lögreglan táragas til að leysa upp mótmælendahóp en hundruð voru samansafnaðri nærri þjóðgarði Bógótár. Mótmælendur söfnuðust einnig saman fyrir framan þinghúsið á Bolivartorgi, nærri forsetahöllinni.
Þá voru þrír lögreglumenn drepnir á föstudag í sprengjuárás í suðvestur Kólumbíu. Ekki er víst hvort atvikið tengist mótmælunum en svæðið er alræmt fyrir eiturlyfjasmygl og glæpasamtök.
Mótmælaalda í Suður-Ameríku
Kólumbíumenn leituðu út á götur landsins vegna mögulegra breytinga á lágmarkslaunum, ellilífeyri og sköttum og einkavæðingar ríkisstofnana. Yfirvöld halda því statt og stöðugt fram að engar fyrirhugaðar breytingar séu á ellilífeyri eða launamálum og að slíkar breytingar yrðu gerðar í samráði við verkalýðsfélög.Mótmælendur hafa þá lýst yfir reiði sinni vegna meintrar spillingar og vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við friðarsamning sem gerður var árið 2016 við uppreisnarhópinn Farc.

Þá sagði Duque, forseti, að hann skildi reiði Kólumbíumanna og hygðist auka samtal við þá.
Óeirðirnar í Kólumbíu haldast í hendur við röð mótmæla í annars staðar í Suður-Ameríku. Mótmælendur hafa leitað út á götur í nokkrum löndum Suður-Ameríku undanfarið, þar á meðal í Chile en þar ríkir nú mesta neyðarástand frá því að landið tók lýðræði upp á ný árið 1990.
Í Bólivíu hafa ásakanir um kosningasvindl leitt það af sér að Evo Morales, sem hefur setið sem forseti frá árinu 2006, sagði af sér. Þá hefur einnig verið mótmælt í Ekvador og Níkaragva.