Með útivistardómi myndi meðferð málsins halda áfram án þess að fyrir liggi vörn af hálfu Løvlands og Grahams. Jóhann Helgason segir það koma sér dálítið á óvart að Løvland hafi ekki brugðist við stefnunni. Það sé varla vegna kostnaðar.
„Maður hefði haldið að hann væri ekki uppiskroppa fjárhagslega,“ segir Jóhann og vísar þá til þess að You Raise Me Up hefur verið sagt eitt tekjuhæsta lag allra tíma. Lagið telur Jóhann vera stuld á lagin Söknuði.

„Ég tel að það sé af ásetningi að þeir hafa hvorki svarað né brugðist á annan hátt við stefnunni,“ segir í kröfunni.
Þótt orðið verði við kröfunni um útivistardóm mun málarekstur Jóhanns gegn tónlistarfyrirtækjum vestra halda áfram enda hafa lögmenn þeirra látið til sín taka. Búist er við því að dómarinn í Los Angeles úrskurði um kröfu þeirra um að máli Jóhanns verði vísað frá 6. desember næstkomandi.
„Ef maður tekur allt með í reikninginn; forsöguna, greinargerðir og tónlistarmöt, þá kæmi mér á óvart ef dómarinn samþykkti þeirra málstað. En það er þessi prósenta sem viðkemur dómaranum sem er alltaf óvissuþáttur,“ segir Jóhann.