Aftur er orðið rafmagnslaust í Húnaþingi vestra vegna truflana sem voru í gærkvöldi og nótt á kerfi RARIK frá Hrútatungu og Laxárvatni. Í óveðrinu í síðustu viku var rafmagnslaust í sveitarfélaginu í um tvo sólarhringa.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef RARIK en þar segir að rafmagnslaust sé nú á svæðinu frá Hvammstanga að Torfustöðum og frá Reykjaskóla að Laugabakka. Bilanaleit hefur staðið yfir í alla nótt og stendur enn.
Þá biður RARIK notendur sem eru tengdir varaafli að spara rafmagn eins og kostur er:
„Nú er atvinnulífið á Dalvík að fara í fullan gang og óskað er eftir að fólk fari sparlega með rafmagn frá kl. 6-18 til að draga úr líkum á óæskilegum truflunum‚ í því skyni er rétt að nota t.d. ekki þvottavélar, þurrkara, eldavélar, bakaraofna og önnur tæki sem nota mikið rafmagn,“ segir á vef RARIK.