Stjórn læknaráðs á Landspítalanum lýsir yfir áhyggjum af starfsskilyrðum og vinnuálagi á læknum spítalans.
„Eins og kunnugt er hefur álag á mörgum deildum spítalans verið mikið og vaxandi undanfarin ár. Margumrædd skýrsla McKinsey frá árinu 2016 benti á mikilvægi þess að taka mönnun klínískra starfstétta til endurskoðunar. Fram kom í skýrslunni að læknar Landspítala sinntu fleiri heimsóknum og innlögnum á hvert stöðugildi en erlend samanburðarsjúkrahús og að hlutfall lækna af heildarmannafla Landspítala væri lágt,“ segir í ályktun ráðsins.
Setja þurfi upp viðmið fyrir hámarksfjölda sjúklinga á hvern lækni sem gæðavísi fyrir þjónustu. Fari hlutfallið yfir ákveðin mörk skuli grípa til viðeigandi ráðstafana.
„Læknaráð hefur undanfarin ár ályktað um ýmis efni sem hafa valdið auknu álagi og/eða stuðlað að minni starfsánægju meðal lækna. Þar má nefna víðtækar sparnaðaraðgerðir, skipuritsbreytingar, vinnu við jafnlaunavottun, langa biðlista eftir rannsóknum og skurðaðgerðum, frestanir á skurðaðgerðum, ástand á bráðamóttöku, ófullnægjandi húsnæði, faglega ábyrgð yfirlækna, lyfjaskort, mannauðsmál, innleiðingu nýrra og ófullgerðra skráningarkerfa, starfsskilyrði og aðstöðu til iðkunar vísinda,“ segir í ályktuninni.
Aukin umræða hafi verið um óhóflegt álag og í kjölfar þess kulnun í starfi sem hafi því miður gætt í vaxandi mæli meðal lækna.
„Læknaráð ítrekar því fyrri ályktanir um að mæta þurfi vaxandi eftirspurn eftir þjónustu spítalans með því að ráða fleiri lækna og bæta aðbúnað þeirra. Ábyrgð á starfsemi Landspítalans, þjónustu við sjúklinga og öryggi þeirra liggur hjá heilbrigðisyfirvöldum sem ber að tryggja að fjármögnun starfseminnar sé í samræmi við verkefni hennar og hlutverk.“
