Umferðin á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mikið síðustu daga og nálgast óðfluga sitt gamla form. Umferðin hefur aukist jafnt og þétt frá því að mestur samdráttur mældist í lok mars, eða þegar hert samkomubann tók gildi þann 24. mars.
Verkfræðistofan EFLA hefur tekið saman tölur um umferð á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að nýjustu umferðartölur eftir að slakað var á samkomubanni bendi til að umferð sé að verða sambærileg og í vikunni fyrir samkomubannið.
„Mesta umferð á höfuðborgarsvæðinu frá því að samkomubann var sett á, mældist síðastliðinn mánudag 4. maí þ.e. sama dag og slakað var á samkomubanninu. Mælingarnar eru byggðar á gögnum úr 79 umferðarteljurum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem fengust frá Reykjavíkurborg.“

Í tilkynningu á vef EFLU segir ennfremur að fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda eftir hjóla- og göngustígum hafi aftur á móti aldrei verið fleiri en í apríl síðastliðnum. Var hlutfallsleg aukning yfir 100 prósent að meðaltali miðað við sama mánuð í fyrra.
Nánar má lesa um könnun EFLU á vef þeirra.