Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að smituðum einstaklingum á svæðinu hefur fjölgað um sex frá 10. apríl. Þar af eru fjórir á Ísafirði og einn í Bolungarvík. Það sé því full ástæða til að halda núverandi aðgerðum áfram.
Þá segir í tilkynningunni að margt bendi til þess að hlutirnir séu að þróast í rétta átt en fjöldi smitaðra á Vestfjörðum er nú 73. Smit hafa nú greinst í öllum sveitarfélögum í umdæminu fyrir utan Árneshrepp, Kaldraneshrepp og Tálknafjarðarhrepp.
Þá er brýnt fyrir fólki að halda sig heima finni það fyrir flensueinkennum og hafa samband við heilsugæslustöð. Þar sé hægt að komast í samband við lækni eða annan heilbrigðisstarfsmann sem geti veitt ráð og ákveðið sýnatöku.
Óbreytt fyrirkomulag verður á sóttvarnaraðgerðum á norðanverðum Vestfjörðum að minnsta kosti til 26. apríl næstkomandi. Núverandi aðgerðaráætlun hefur verið í gildi frá 6. apríl.
Lögreglan minnir á hjálparsíma Rauða krossins 1717 og þá er einnig hægt að nota netspjallið. Fólk sem er í einangrun, sóttkví eða eiga erfitt geta leitað þangað og fengið andlegan stuðning og aðstoð.