Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mætir í Bítið í þætti dagsins þar sem hann mun ræða ástandið í þjóðfélaginu og efnahagslífinu nú á tímum heimsfaraldurs.
Þátturinn hefst á slaginu 6:50 og stendur til klukkan 10. Hægt er að fylgjast með þættinum á Bylgjunni og sömuleiðis sjónvarpsútsendingu úr útvarpsstúdíóinu hér á Vísi og á rásinni Stöð 2 Vísi í sjónvarpi.
Ólafur Sæmundsson byggingarstjóri og Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri munu ræða við þá Heimi og Gulla um hvernig hægt verði að koma hjólum atvinnulífsins á stað og þá verður sömuleiðis staðan á bílasölu í landinu til umræðu í þættinum.
Rætt verður við Davíð Lúther Sigurðsson hjá Sahara um hvað fólk hefur verið að „gúgla“ í tölvum og símum sínum í því ástandi sem nú ríkir.
Þá verður rætt hvernig sé hægt að koma bæði unglingum og fullorðnum „aftur af stað“ eftir páska, og leita þeir svara hjá Erlingi Jóhannssyni, prófessor í íþrótta- og heilsufræði.
Milli 9 og 10 mun hlustendum svo gefast kostur á að hringja inn og óska frú Vigdísi Finnbogadóttur til hamingju með daginn, en hún fagnar 90 ára afmæli sínu í dag.
Loks verður rætt við Rakel Sveinsdóttur sem heldur utan um Atvinnulíf á Vísi um hvernig best sé að tækla fjárhagsáhyggjur á þessum tímum.