Áhugi á samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur aukist eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp en leggja á stofnunina niður um áramótin. Forstjóri stofnunarinnar telur að hægt verði að finna öllum þessum verkefnum farveg.
Um áttatíu manns vinna hjá Nýsköpunarmiðstöðinni sem varð til árið 2007 með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.
Nýsköpunarráðherra tilkynnti fyrir nokkrum mánuðum að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður um áramót. Frumvarp þar að lútandi er þó ekki komið fram en kemur væntanlega fram á haustþingi. Þar er unnið að fjölbreyttum og mjög mörgum verkefnum sem nú er verið að reyna að finna farveg.

Sigríður Ingvarsdóttir forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands segir áhuga á samstarfi við miðstöðina hafa farið vaxandi eftir að kórónuveiru faraldurinn hófst eins og alltaf þegar þrengi að að í þjóðfélaginu.
„Við höfum gríðarlega marga snertifleti, miðstöðin, við marga. Hingað hafa verið að leita háskólar, einstaklingar, frumkvöðlar, fyrirtæki og svo framvegis. Við höfum fundið fyrir mikilli ásókn,“ segir Sigríður. Verkefnin geti verið stutt en sum séu áætluð til allt að fimm ára.
„Við erum að vinna að rannsóknum fyrir byggingaiðnaðinn, við erum að vinna að veg- og jarðtækni. Við erum að vinna við efnagreiningar og umhverfisvöktun. Við erum að vinna með frumkvölum og fyrirtækjum. Svo erum við að vinna mjög stór rannsóknarverkefni á sviði efnis-, líf- og orkutækni. Þannig að þetta er ofboðslega breið flóra verkefna sem við erum að sinna hérna,“ segir forstjórinn.
Nú sé stýrihópur á vegum nýsköpunarráðuneytisins að störfum að skoða nokkrar sviðsmyndir um framhaldið. Meðal annars sé rætt um að háskólarnir taki við hluta verkefnanna.
Hvað verður um starfsfólk sem nú er í eins konar limbói hérna?
„Það er auðvitað óvissutími núna. En það er verið að finna verkefnum farveg og það mun mikið af starfsfólki halda áfram að vinna við þessi verkefni. En undir hvaða formi nákvæmlega get ég ekki sagt á þessari stundu og það er eiginlega stjórnvalda að svara því,“ segir Sigríður.