Alþingi fær til sín frumvörp vegna nýjustu aðgerða stjórnvalda í efnahagsmálum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn eftir helgi. Fyrir liggur í þinginu frumvarp frá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra um heimild til ferðaskrifstofa að bjóða inneignarnótur í stað þess að greiða ófarnar pakkaferðir. Frumvarpinu hefur ekki verið vel tekið af öðrum en ferðaskrifstofunum.

Þórdís Kolbrún ræðir þessi mál og önnur sem tengjast ferðaþjónustinni í Víglínunni í dag. Þá hafa stjórnvöld skoðað nokkrar sviðsmyndir varðandi framtíð ferðaþjónustunnar þar sem versta sviðsmyndin gerir ráð fyrir mjög mikilli fækkun farþegar á næstu árum.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata ræðir þessi mál einnig í Víglínunni. En að auki verður rætt um hugafarsbreytingu sem er að eiga sér stað í samfélaginu varðandi ólögleg vímuefni og til þeirra sem þau nota efnin.

Halldóra hefur leitt þá umræðu á Alþingi undanfarin ár og ákveðin straumhvörf urðu í vikunni þegar velferðarnefnd leggur samhljóða til að frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými nái fram að ganga.
Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 og Vísi klukkan 17:40 og verður birt á sjónvarpshluta Vísis fljótlega eftir útsendingu þáttarins.