Þingmenn sem hafa sagt sig úr þingflokki LREM, flokki Emmanuel Macron Frakklandsforseta, hafa tekið höndum saman og stofnað nýjan flokk á franska þinginu. Forsetinn hefur þar með misst sinn hreina meirihluta á þinginu.
Þingmennirnir sem um ræðir greindu í morgun frá stofnun flokksins Vistfræði, lýðræði og samstaða (EDS), en í þeirra hópi er meðal annars að finna þingmennina Cedric Villani og Paula Forteza. Alls eru þingmennirnir sautján talsins.
LREM vann mikinn sigur í frönsku þingkosningunum 2017, skömmu eftir forsetakosningarnar þar sem Macron vann sigur á Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar.
Á síðustu mánuðum hefur kvarnast úr þingflokknum, en þingmennirnir hafa gagnrýnt ákvarðanatöku Macron og þrýst á aukin útgjöld til velferðarmála.
Utanríkisráðherrann Jean-Yves Le Drian segir málið leitt, en að meirihluti stjórnarinnar sé þó enn tryggður. LREM geti áfram treyst á stuðning flokka eins og miðjuflokksins MoDem.
LREM er nú með 288 þingmenn innan sinna raða, en alls þarf 289 til að ná meirihluta. Flokkurinn tryggði sér 314 þingsæti í kosningunum 2017.
Paula Forteza og Matthieu Orphelin, náinn bandamaður fyrrverandi umhverfisráðherrans Nicholas Hulot, munu leiða nýja flokkinn. Hulot sagði skilið við ríkisstjórn Macron í september 2018 vegna óánægju hans með Macron og stefnu hans í loftslagsmálum.