Í síðustu viku hófst leit að nýju að Andris Kalvans, sem talinn er hafa týnst í Hnappadal á Snæfellsnesi þann 30. desember síðastliðinn. Leit var hætt í janúar vegna erfiðra veðurskilyrða og ekki hefur verið hægt að hefja leit á ný fyrr en nú.
Þriðjudaginn 19. maí hóf lögreglan á Vesturlandi ásamt björgunarsveitarmönnum og sérsveitarmönnum leit að Hrútaborgum þar sem talið er að Andris hafi verið samkvæmt frétt á vef Skessuhorns. Þangað var ekið á sexhjólum og flugdróna flogið yfir stórt svæði til að leita mannsins.
Leitarskilyrði eru nokkuð erfið en leit verður haldið áfram þar til maðurinn finnst að sögn lögreglu.
Andris er vanur göngumaður og hefur ekkert til hans spurst frá því hann hvarf í desember. Bíll Andris fannst í vegkanti milli bæjanna Heggstaða og Mýrdals á Snæfellsnesi fyrir áramót og fannst í honum fjallgöngubúnaður, fatnaður, ísexi og fleira.