Óttar Magnús Karlsson skoraði gull af marki þegar Víkingur sigraði Stjörnuna, 4-3, í æfingaleik í Víkinni í gær. Hann skoraði tvö mörk fyrir bikarmeistarana í leiknum sem og Viktor Örlygur Andrason.
Markið stórglæsilega skoraði Óttar með skoti beint úr aukaspyrnu sem fór í slána og inn, óverjandi fyrir Harald Björnsson í marki Stjörnunnar. Markið má sjá hér fyrir neðan.
Víkingur vann Stjörnuna 4-3 í æfingaleik í gær. Óttar Magnús og Viktor Örlygur skoruðu sín hvor 2 mörkin. Hér er seinna markið frá Óttari pic.twitter.com/bXu3ty63Tu
— Víkingur FC (@vikingurfc) June 2, 2020
Þetta er allavega þriðja markið sem Óttar skorar með skoti beint úr aukaspyrnu á svipuðum stað síðan hann kom aftur til Víkings um mitt síðasta sumar. Og öll þrjú aukaspyrnumörkin hafa verið á sama mark, því sem er nær félagsheimilinu.
Óttar skoraði tvö mörk beint úr aukaspyrnum á fimm dögum í ágúst í fyrra. Bæði komu þau í 3-1 sigrum Víkings.
Þann 11. ágúst skoraði Óttar beint úr aukaspyrnu þegar Víkingur vann ÍBV í 16. umferð Pepsi Max-deildarinnar. Hann endurtók svo leikinn í sigri á Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins 15. ágúst. Óttar skoraði síðan markið sem tryggði Víkingum bikarmeistaratitilinn gegn FH 14. september.
Óttar og félagar í Víkingi mæta KR í Meistarakeppni KSÍ á Meistaravöllum á sunnudaginn. Fyrsti leikur Víkinga í Pepsi Max-deildinni er gegn Fjölnismönnum sunnudaginn 14. júní.