Sport

Sturluð stað­reynd um af­rek Ey­glóar

Sindri Sverrisson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir var skælbrosandi eftir afrek sín á EM enda varð hún Evrópumeistari, fyrst Íslendinga í ólympískum lyftingum.
Eygló Fanndal Sturludóttir var skælbrosandi eftir afrek sín á EM enda varð hún Evrópumeistari, fyrst Íslendinga í ólympískum lyftingum. Skjáskot/torokhtiy_media/eyglo_fanndal

Eygló Fanndal Sturludóttir skráði sig rækilega í sögubækurnar með fyrsta Evrópumeistaratitli Íslendings í ólympískum lyftingum á skírdag. Afrek hennar er enn stærra þegar horft er til annarra þyngdarflokka á mótinu.

Eygló lyfti 109 kílóum í snörun (e. snatch) og 135 kílóum í jafnhendingu (e. clean & jerk) eða 244 kílóum samanlagt. Allt voru þetta ný Íslands og Norðurlandamet í þyngdarflokknum sem hún keppti í, -71kg flokknum, og koma til með að standa um ókomna tíð þar sem ákveðið hefur verið að breyta þyngdarflokkunum.

Lyftingasamband Íslands hefur nú bent á þá sturluðu staðreynd að lyfturnar sem Eygló náði hefðu einnig dugað til sigurs í þyngri þyngdarflokkum.

Hún lyfti sem sagt meira samanlagt en sigurvegararnir í bæði -76 kg flokki og -81 kg flokki. Það þýðir að þó að keppendur hefðu mátt vera tíu kílóum þyngri en Eygló þá náði samt enginn þeirra að lyfta eins miklu og þessi 23 ára læknanemi frá Íslandi.

Sigurvegararnir í -71, -76 og -81 kg flokki. Eins og sjá má lyfti Eygló Fanndal Sturludóttir mestu af öllum, þrátt fyrir að vera í þyngdarflokknum með minnstu hámarksþyngd keppenda.Skjáskot/@icelandic_weightlifting

Hin ítalska Kegne Toko vann -76 kg flokkinn með því að lyfta samtals 233 kg eða heilum ellefu kg minna en Eygló.

Elena Erighina frá Moldóvu lyfti svo samtals 242 kg og vann -81 kg flokkinn, þrátt fyrir að lyfta tveimur kg minna en Eygló.


Tengdar fréttir

Eygló Fanndal Evrópumeistari

Íslenska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir varð í dag fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í fullorðinsflokki í Ólympískum lyftingum. Þetta afrekaði hún á EM sem fer fram í Chisinau í Moldavíu.

Vonast til að gera íslensku þjóðina stolta

Miklar væntingar eru gerðar til íslensku lyftingarkonunnar Eyglóar Fanndal Sturludóttiur þegar hún keppir á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Moldóvu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×