Mun færri mættu á stuðningsmannafund Donald Trump Bandaríkjaforseta í Bank of Oklahoma Center en búist var við. Höllin tekur um það bil nítján þúsund manns í sæti og hafði forsetinn lýst því yfir að tæplega milljón manns hefðu óskað eftir miða á fundinn.
Áætlað var að bæta við útisvæði fyrir þá sem fengju ekki sæti þar sem ræða forsetans yrði sýnd en ákveðið var að sleppa því í ljósi þess að höllin sjálf var ekki einu sinni full.
I feel for @realDonaldTrump. I’ve done shows in a half empty venue. It doesn’t feel good. You have to dig deep and remember why you’re there: to spread hatred and lies. pic.twitter.com/9pAA5CLIgI
— Dave Foley (@DaveSFoley) June 20, 2020
Forsetinn hafði verið gagnrýndur fyrir að halda fundinn í miðjum kórónuveirufaraldri en hann gerði veiruna að umfjöllunarefni í ræðu sinni. Gantaðist hann með að hafa krafist færri sýnataka í ljósi þess að svo mörg smit væru að greinast. Fundurinn er ein stærsta samkoma sem fram fer innandyra í landinu frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst.
Um 2,2 milljón kórónuveirusmit hafa verið staðfest í Bandaríkjunum og 119 þúsund dauðsföll eru tengd við veiruna.
Gestir fundarins þurftu að skrifa undir plagg þar sem þau samþykktu að framboð Trump bæri ekki ábyrgð á sjúkdómum sem gætu smitast milli manna. Á vef BBC er greint frá því að sex starfsmenn framboðsins greindust með kórónuveiruna aðeins nokkrum klukkustundum áður en fundurinn hófst.
Trump kenndi fjölmiðlum og mótmælendum um lélega mætingu á fundinn, enda var búist við miklum fjölda líkt og áður sagði. Hrósaði hann þeim sem mættu á fundinn og kallaði stuðningsmenn sína „baráttufólk“ fyrir að mæta.