Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kom á fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðinu skömmu fyrir klukkan ellefu í morgun. Katrín bauð Kára til fundarins, sem stóð yfir í um hálftíma.
Fréttablaðið greindi fyrst miðla frá fundinum í morgun en Kári hefur ekki viljað tjá sig um það sem þar fór fram við fjölmiðla í dag.
Fundurinn er haldinn í framhaldi af tilkynningu Kára þess efnis í fyrradag að Íslensk erfðagreining hætti aðkomu að kórónuveiruskimun hér á landi eftir 13. júlí, ákvörðun sem kom yfirvöldum nokkuð á óvart. Þá hefur Kári gagnrýnt Katrínu og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra harðlega fyrir það hvernig staðið hefur verið að skimunarmálum og samskiptum við Íslenska erfðagreiningu.
Kári afþakkaði fundarboð Katrínar í gær til að ræða landamæraskimun. Hann sagði í samtali við fréttastofu á mánudag að hann teldi að Landspítalinn væri í stakk búinn að taka við þunganum af kórónuveiruskimuninni.