Arnþór Birgisson, sem samdi ásamt öðrum lagið Double Trouble, sem flutt var í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, segir það hafa verið tilviljun að sænska söngkonan Molly Sandén, sem syngur fyrir persónu Rachel McAdams í myndinni, hafi verið fengin í hlutverkið. Þá sé hann spenntur fyrir því að semja íslenskt Eurovision-lag.
Gamall vinur Arnþórs hafði verið ráðinn til þess að sjá um tónlistina í myndinni, og hann bauð Arnþóri að gera með sér lag í Los Angeles. Þar hafi Molly einnig verið stödd, en hún er besta vinkona litlu systur eiginkonu Arnþórs. Hann hafi fengið hana til að koma og syngja yfir lagið, en í kjölfarið hafi hún verið fengin í hlutverkið.
„Svo kom leikstjórinn og heyrði í henni og sagði bara ,Heyrðu, hún verður að syngja allt í þessari mynd, hún er alveg fullkomin í þetta.‘“
Arnþór hafi því haldið áfram að taka upp með Molly í Stokkhólmi, þar sem hún býr.
Arnþór segist stefna á að reyna að semja lag til þess að senda í Söngvakeppnina, forkeppni Íslands fyrir Eurovision. Viðtal við Arnþór úr Bítinu á Bylgjunni, þar sem hann ræðir myndina, tónlistina og starf sitt sem flugmaður, má heyra í spilaranum hér að neðan.