Hnúfubakar fylgdu Hríseyjarferjunni út í eyjuna á dögunum og léku listir sínar fyrir farþega. Ferðamannastraumur til Hríseyjar hefur aukist jafnt og þétt í sumar og telur skipstjóri Hríseyjarferjunnar að vel heppnuð markaðsherferð, auk fjölmiðlaumfjöllunar um stórbrunann sem varð í eyjunni í maí, eigi þar hlut að máli.
Átta þúsund manns lögðu leið sína til Hríseyjar í júní og gert er ráð fyrir að fleiri láti sjá sig í júlí, sem yfirleitt er fjölmennasti mánuður ársins í Hrísey með tilliti til ferðamanna. Ásóknin hefur verið svo mikil að á fara þurfti allt að þrjár aukaferðir á dag þegar mest var til að ferja alla til og frá eyjunni.

„Við áttum nú von á að þetta yrði gott sumar hjá okkur. Erlendir ferðamenn hafa ekki verið það mikið að koma til Hríseyjar, mest Íslendingar. Svo að þegar Íslendingum á ferðinni fjölgar þá fjölgar hjá okkur,“ segir Þröstur Jóhannsson skipstjóri á Hríseyjarferjunni Sævari.
„Við fengum líka mikla athygli þegar frystihúsið brann og vorum sífellt í fréttum ásamt því að Akureyrarbær og Ferðamálafélag Hríseyjar fór í samstarf með okkur á ferjunni um að hafa frítt í ferjuna í tvær vikur í júní. Þetta hefur allt sitt að segja,“ bætir Þröstur við.

Ferjan leggur af stað frá Árskógsströnd á tveggja tíma fresti yfir sumarmánuðina. Þröstur segir eyjunni margt til framdráttar, þar á meðal gott leiksvæði fyrir ofan höfnina, fuglalíf, veitingastaði og sundlaug.
„Svo veit maður aldrei hvaða ævintýri fólk fær í bónus. Um daginn þá fylgdu hnúfubakar ferjunni allan daginn og heldu sýningu fyrir farþegana,“ segir Þröstur.
Jóhann Pétur Jóhannson, vélstjóri á Sævari og bróðir Þrastar, náði myndbandi af hnúfubökunum leika listir sínar. Myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.